Take a photo of a barcode or cover
A review by stinajohanns
Twelve Years a Slave by Solomon Northup
4.0
Það er alveg sama hversu margar bækur ég les um þrælahald og hversu margar myndir eða sjónvarpsþætti ég sé, ég get ekki skilið hvernig ein manneskja getur haldið að hún geti átt aðra manneskju. Kannski er það af því að við fáum auðvitað aldrei að heyra hlið þrælahaldaranna, en líklegra er að það sé vegna þess að þótt við heyrðum hlið þrælahaldaranna gætum við aldrei skilið hana og aldrei samþykkt hana. Þetta er einfaldlega svo galin hugmynd. Ég ólst upp á þeim árum þegar RÚV sýndi Rætur í sjónvarpinu og ég grét yfir örlögum Kunta Kinta þótt ég hefði bara verið tíu ára. Síðan þá hef ég af og til séð eða lesið um líf þræla en þetta er í fyrsta sinn sem ég les fyrstupersónufrásögn manns sem lifði þessu lífi. Og rétt eins og forferður hans í Afríku var hann frjáls maður þegar hann var tekinn og seldur öðrum. Helsti gallinn á bókinni er að á þessum árum sem Solomon Northup eyðir (já eyðir) í þrældóm kynnist hann svo mörgu fólki og svo margir koma á einhvern hátt að sögu hans að það er stundum svolítið erfitt að halda utan um það. Ég var því stundum svolítið týnd. En það breytir því ekki að sagan er áhrifarík og þegar maður heyrir af því hvað sumir þurfa að þjást verður maður að vera býsna sáttur við það frelsi sem manni sjálfum hefur hlotnast.