A review by oligneisti
Seven Wonders by Ben Mezrich

2.0

Ég sá höfundinn í þætti Craig Ferguson og ákvað að lesa bókina. Hún virkaði á mig eins og eitthvað sem ég hefði viljað lesa þegar ég var unglingur.

Þetta var alveg rosalega heimskuleg bók. Það á víst að gera kvikmynd eftir henni og það sést að höfundurinn var að reyna að skrifa Indiana Jones mynd.

Jack Grady er verri mannfræðingur en Indiana Jones fornleifafræðingur. Reyndar er Grady yfirleitt meira á sviði fornleifafræði en mannfræði en er væntanlega kallaður mannfræðingur til að vera ekki of augljós eftirherma en það væri erfitt að vera augljósari eftirherma.

Svölu tilsvör söguhetjunnar eru sársaukafull í kjánalegheitum sínum. Það er bara vont.

Aukapersónurnar eru þunnar og almennt virðist höfundurinn ekkert vita hvað hann á að gera við þær. Sérstaklega á það við um annan framhaldsnemann sem fylgir hetjunni því sú persóna fer í gegnum bókina án þess að afreka nokkuð.

Leyndardómurinn sjálfur í bókinni gerir ráð fyrir að allir fornleifafræðingar sem rannsakað hafa umrædd undur séu hálfvitar.

Versti glæpur höfundar er samt að hann kann ekki að segja áhugaverða sögu. Hann kann ekki að byggja upp spennu. Eða kannski kann hann þetta og er hér að leggja sig fram við að sýna ekki þessa kunnáttu sína.

Bókin má samt eiga það að hún er auðlesin (og fær því tvær stjörnur en ekki bara eina, ef hún ætti skilið eina stjörnu hefði ég ekki náð að klára hana) en það þýðir ekki að nokkur maður ætti að leggja það á sig.