agusto74 's review for:

Humboldt's Gift by Saul Bellow
3.0

Athygli vert að endurnýja kynni mín af skrifum Bellows. Skrifandi núna einhverjum 4-5 mánuðum eftir að ég kláraði bókina þá er það fyrst og fremst húmorinn sem situr eftir. Sjálfum finnst mér Bellow sjá Citrine sem skoplega persónu. Og Citrine sjálfur er holdgervingur sjálfskoðunar og sjálfsgagnrýni og virðist m.a.s. hafa húmor fyrir eigin sérvísku.

Sumum gagnrýnendum finnst það truflandi hversu fyrirferðamikil bókvíska Bellows er í verkum hans, og segja það oft ekki vera annað en sýndarmennska, sem orsakast af minnimáttarkennd Bellows gagnvart menntun sinni. Mér finnst eins og þessum gagnrýnendur hafi yfirsést hve írónískum augum Bellow í raun lítur þessa kunnáttu. Herzog og Citrine eru sprenglærðir og uppfullir af alls konar merkilegum og ómerkilegum fróðleik en það er einmitt það sem gerir þá að svo skoplegum persónum. Þeir eru meira eða minna vanhæfir þegnar í samfélagi manna. Ófærir um að skilja samtímann og annað fólk.

Ég naut þess að lesa þessa bók. Kímti ósjaldan í mér. Hinn sérkennilegi Weltschmertz sem sjaldan er langt frá yfirborðinu hjá karakterum Bellows ,sem ég tók mjög til mín þegar ég las Herzog, sýndist mér nú vera annar veikleiki karaktersins. Bellow er fúlasta alvara þegar hann skrifar um þessar tilfinningar, en hann veit fullvel að þetta er eitt af því sem gerir Citrine lífið svo óberanlega erfitt. Roth myndi kalla hann tilfinningasaman gyðing, sem er ekki að gera lítið úr Citrine því það er vissulega pláss og ástæða fyrir þessum sterku tilfinningum.

Textinn sem Bellow skrifar er líka mjög fallegar og það er líf í öllu sem hann lýsir. Umhverfi Chicago er persónugert á heillandi máta.